Innlent

Óveðrið hefur enn ekki náð hámarki

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vill árétta það að óveðrið hefur enn ekki náð hámarki á Suðvesturlandi. Einnig á veður enn eftir að versna annars staðar á landinu. Í tilkynningu frá deildinni er hnykkt á því að víða um land er ekkert ferðaveður og fólk ætti alls ekki að vera á ferðinni að nauðsynjalausu. „Það á jafnt við ferðir innan höfuðborgarsvæðisins eins og ferðalög milli staða."

Fólki er bent á að draga fyrir glugga áveðurs í húsum og forðast að dvelja í herbergjum sem eru áveðurs.

Á Keflavíkurflugvelli bíða um 500 farþegar í fjórum flugvélum eftir því að komast frá borði. Sökum veðurofsans er hvorki hægt að koma vélunum upp að flugstöðvarbyggingunni né koma fólkinu frá borði á annan hátt. Almannavarnir á Suðurnesjum eru í viðbragððstöðu vegna þessa.

„Þá vill almannavarnadeildin minna á að í dag hefur verið lýst yfir viðbúnaðarstigi vegna snjóflóðahættu bæði á sunnanverðum og norðanverðum Vestfjörðum. Af þeim sökum er almannavarnakerfið á Vestfjörðum í viðbragðsstöðu," segir einnig í tilkynningu almannavarnadeildar.

Í tilkynningu frá Landsbjörgu segir að um 180 sjálfboðaliðar björgunarsveita, ásamt slökkviliði og lögreglu, hafi nú sinnt um 150 útköllum vegna óveðurs sem gengur yfir landið. „Flest hafa útköllin verið á höfuðborgarsvæðinu, eða tæplega 100 talsins, á Suðurnesjum þar sem hátt á þriðja tug aðstoðarbeiðna hafa borist og á Akranesi þar sem 10 útköll hafa verið vegna veðurs. Einnig hafa björgunarsveitir verið að störfum í Vestmannaeyju, Hnífsdal, Hellu og Snæfellsbæ."

 

Búist er við að veðrið nái hámarki á milli klukkan 9 og 12 í kvöld á höfuðborgarsvæðinu, skilin ganga svo tiltölulega hratt yfir landið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×