Innlent

„Ég geri ábyggilega ráð fyrir að hann hafi gert það"

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.
Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar.

Hjörleifur Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar og fyrrverandi borgarlögmaður, segist ekki muna nákvæmlega eftir því hvort Vilhjálmur Vilhjálmsson hafi leitað til sín um hvort hann hafi haft umboð til að taka ákvarðanir á eigendafundi Orkuveitunnar á sínum tíma.

Í yfirlýsingu frá Vilhjálmi í dag kemur fram að hann hafi ráðfært sig við fyrrverandi borgarlögmann en nafngreindi hann ekki. „Ég þarf nú að rifja þetta upp en ég geri ábyggilega ráð fyrir því að hann hafi gert það," segir Hjörleifur Kvaran í samtali við Vísi aðspurður hvort Vilhjálmur hafi leitað eftir hans áliti.

„Ég dró það aldrei í efa að hann hefði umboð til að taka þessar ákvarðanir og ef ég hefði gert það hefði ég væntanlega sagt honum það," segir Hjörleifur. „Þetta voru ákvarðanir sem ekki rýrðu efnahag Orkuveitunnar, frekar var það á hinn veginn. Á þessum tíma var ég í miklu og stöðugu sambandi við Viljhjálm og það er ljóst í mínum huga að hann var í rétti í málinu."

Hjörleifur bætir því þó við að eftir á að hyggja hefði kannski verið betra að sækja umboð til allra eigenda áður en fundurinn var haldinn. Hjörleifur var borgarlögmaður í áratug.

Annar fyrrverandi borgarlögmaður, Vihjálmur H. Vilhjálmsson, neitaði því í samtali við fréttamann Stöðvar 2 í dag að nafni sinn hafi átt við sig þegar hann sagðist hafa leitað álits fyrrverandi borgarlögmanns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×