Innlent

Göturnar meira saltaðar en fyrri ár

Meira hefur verið borið af salti á götur höfuðborgarinnar í vetur en síðustu ár. Í janúar kom það að minnsta kosti einu sinni fyrir að saltbílar voru á ferðinni samfellt í sólarhring.

Veturinn hefur verið nokkuð snjóþungur og hefur undanfarið mætt mikið á þeim sem starfa við að salta og moka göturnar í Reykjavík. Sjaldan hefur farið eins mikið magn af salti á göturnar og í ár og eru dæmi um að saltbílar hafi verið á ferðinni samfellt sólarhring.

Á tímabilinu október 2005 fram í lok janúar 2006 fóru 4.150 tonn af salti á göturnar í Reykjavík. Á sama tímabili ári síðar var nokkuð minna dreift af salti eða 3.880 tonnum. Frá því í október í fyrra fram í lok janúar var hins vegar mun meira dreift af salti á göturnar eða 5.211 tonnum.

Ekki eru allir ánægðir með saltið og hafa verið gerðar tilraunir með að nota sand í stað salts. Það hefur ekki gefist vel og sandurinn meðal annars fyllt niðurföllin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×