Innlent

Vilja svör um íbúðir fyrir aldraða og stúdenta

MYND/Pjetur

Nýr minnihluti í borginni hyggst á borgarstjórnarfundi í dag kalla eftir svörum hjá meirihlutanum vegna tillagna um íbúðir fyrir aldraða og stúdenta sem fyrri meirihluti hafði gengið frá.

Í tilkynningu frá Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar, er bent á að fráfarandi meirihluti hafi lagt fram fullunnar tillögur um úthlutun 600 stúdentaíbúða og á þriðja hundrað íbúða fyrir aldraða á síðasta fundi borgarstjórnar. Tillögunni hafi fylgt úthlutanaráætlun og allir nauðsynlegir skilmálar.

Nýr meirihluti hafi vísað málinu til borgarráðs og í stað þess að afgreiða það þar hafi því verið vísað til skipulagssviðs og framkvæmdasviðs. „Í raun má segja að það þýði að málið sé aftur komið á byrjunarreit því upphaf þess má rekja til tillöguflutnings Samfylkingarinnar í borgarráði sumarið 2006. Þeirri tillögu var einmitt vísað til skipulagssviðs," segir Dagur.

Fulltrúar Samfylkingar, Vinstri - grænna og Framsóknarflokks létu bóka í borgarráði vegna þessa að það ylli vonbrigðum að nýr meirihluti skyldi kjósa að leggja stein í götu brýnna verkefna í þágu aldraðra og stúdenta með því að vísa fullunninni tillögu um lóðaúthlutanir til baka til skipulagsráðs. „Það er jafnframt áhyggjuefni að meirihlutann skorti metnað til þess að aldraðir og stúdentar gjaldi ekki fyrir yfirstandandi óstöðugleika við stjórn borgarinnar," segir enn fremur í bókuninni.

Sem fyrr segir er reiknað með að málið verði rætt á borgarstjórnarfundi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×