Innlent

Glitnisræningi var einnig á ferðinni í Select-ráni á fimmtudag

MYND/Sigurjón

Einn mannanna sem handtekinn var í gær í tengslum við rán í útibúi Glitnis í Lækjargötu hefur viðurkennt að hafa verið þar að verki.

Eins og fram kom í fréttum í gær réðst hann inn í bankann vopnaður exi og hafði á brott með sér um milljón króna í reiðufé. Hann var svo handtekinn ásamt félaga sínum í Garðabæ skömmu fyrir hádegi í gær en áður hafði lögregla handtekið mann á gistiheimili Hjálpræðishersins.

Sá sem ruddist inn í bankann viðurkenndi einnig að hafa verið á ferðinni í verslun Select í Hraunbæ síðastliðið fimmtudagskvöld en þá flýði hann af vettvangi. Hann hefur þegar hafið afplánun vegna eldri brota, en hann var í fyrra dæmdur fyrir að ræna verslun 10-11 vopnaður járnstöng.

Félaga hans sem einnig var gripinn í Garðabæ hefur verið komið á viðeigandi stofnun að sögn Ómars Smára Ármanssonar hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar.

Hinir tveir sem handteknir voru hafa gert grein fyrir sínum þætti í málinu og eru þeir nú frjálsir ferða sinna. Rannsókn lögreglu verður kláruð og svo fer málið sína leið í kerfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×