Innlent

Ráð eða ráðandi í stað ráðherra

MYND/GVA
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, mælti í dag fyrir þingsályktunartillögu sinnum að ríkisstjórninni yrði falið að undirbúa breytingar á stjórnarskrá og lögum til þess að taka upp nýtt starfsheiti ráðherra sem bæði kyn gætu borið. Ráð, ráðandi, ráðseti og ráðseta voru meðal þeirra tillagna sem þingmaðurinn hefur fengið frá áhugasömum landsmönnum.

Steinunn benti á að tillagan hefði vakið nokkra athygli þegar hún var lögð fram, mun meiri athygli en ýmis önnur mál sem hún hefði rætt um, eins og Sundabraut og forgangsakreinar Strætós. Taldi hún að málið hefði hitt á einhvern þann tímapunkt að menn hafi verið tilbúnir að ræða það á opinn hátt.

Steinunn vísaði til þess að sams konar tillaga hefði áður verið lögð fram, fyrir 15 árum, en málinu hefði þá verið lýst sem hallærisgangi þess tíma. Vonaði hún að svo yrði ekki nú.

Steinunn sagði enn fremur að málið væri angi af umræðu um íslenska tungu sem hefði verið öflug í tengslum við 200 ára ártíð Jónasar Hallgrímssonar á haustdögum. Málið væri líka hluti af kynjabaráttunni. Málið væri ekki það sem skipti öllu í því sambandi heldur væri það ákveðið birtingarform á mismunun sem hún teldi við hæfi að ræða á Alþingi.

Steinunn sagðist hafa fengið gríðarlega sterk viðbrögð við málinu, bæði hér innanlands og hjá Íslendingum í útlöndum. Henni hefði borist fjöldinn allur af tillögum að nýjum heitum. Hún legði ekki fram sérstaka hugmynd að heiti með þingsályktunartillögunni en þau sem oftast hefðu verið nefnd í tillögum sem henni hefðu borist væru ráð, ráðandi, ráðfrú og ráðherra og ráðseti og ráðseta.

Sagðist Steinunn Valdís vonast til að ekki færi eins fyrir málinu og þegar það var síðast lagt fram, það er að það yrði svæft í nefnd heldur yrði það sett í einhvern farveg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×