Innlent

Öxin fannst á herbergi hjá Hjálpræðishernum

MYND/Sigurjón

Öxin sem notuð var við rán í útibúi Glitnis í morgun fannst á herbergi í gistiheimili Hjálpræðishersins þar sem einn mannanna sem grunaður er um aðild að málinu var handtekinn.

Eins og fram hefur komið hafa þrír verið handteknir vegna málsins og er þess fjórða leitað. Lögregla veit hver hann er. Eftir að maður hafði verið handtekinn á gistiheimili Hjálpræðishersins fyrir hádegi vegna málsins voru tveir menn handteknir í Garðabæ.

Segir lögregla í tilkynningu að þeir hafi áður yfirgefið gistiheimilið og haldið þaðan í bíl. Annar þeirra reyndist vera með ránsfenginn en fram hefur komið að hann er undir einni milljón króna.

Í samtali við Vísi í dag sagði Ómar Smári Ármansson, yfirlögregluþjónn hjá auðgunarbrotadeild lögreglunnar, að ekki hefði verið tekin ákvörðun um það hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum, en lögregla hefur frest til þess til morgundags.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×