Innlent

Krapastífla í Elliðaám rakin til kuldakastsins

Búið er að opna vegi við ósa Elliðaánna aftur en þeim þurfti að loka í morgun vegna krapastíflu sem myndaðist í ánum. Krapastífluna má rekja til kuldakastsins að undanförnu og þegar Elliðárstöðin var ræst aftur í morgun flæddi áin yfir bakka sína.

Vegna flóðsins þurfti lögregla að loka Rafstöðvarvegi í Elliðaárdal og urðu töluverðar tafir á morgunumferðinni af þeim sökum. Starfsmenn Orkuveitunnar voru kallaðir á vettvang enda heyra árnar undir fyrirtækið.

Að sögn Eiríks Hjálmarssonar, upplýsingafulltrúa Orkuveitunnar, má rekja krapastífluna til kuldakastsins að undanförnu. Í kuldanum myndaðist svokallaður grunnstingull sem eru ísnálar sem sökkva til botns. Þær safnast upp og grynnka þannig farveginn.

Að sögn Eiríks er Elliðaárstöðin aðeins keyrð virka daga og þegar hún var ræst upp aftur í morgun jókst rennslið í ánum. Vatnið mætti hins vegar mótstöðu í krapastíflunni og því flæddu árnar yfir bakka sína skammt fyrir neðan rafstöðina. Gröfumaður var kallaður á vettvang og hrærði hann í krapastíflunni þannig að vatnið komst í eðlilegan farveg. Var umferð hleypt aftur á Rafstöðvarveginn um tíuleytið.

Að sögn Eiríks munu starfsmenn Orkuveitunnar fara upp með Elliðaánum og kanna hvort krapastíflur hafi myndast víðar í ánum. Hann segir stíflur sem þessar vel þekktar í íslenskum ám og þetta hafi áður komið fyrir í Elliðaánum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×