Innlent

86% styðja Ólaf Ragnar sem forseta

Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mikils stuðnings.
Ólafur Ragnar Grímsson nýtur mikils stuðnings.

80% svarenda í könnun Gallups sögðust vera ánægðir með ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar um að gefa kost á sér til endurkjörs til forseta Íslands. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi sem birtur er á vef RÚV. Niðurstöðurnar nú eru svipaðar og þær voru þegar sömu spurningar var spurt í Þjóðarpúlsinum í mars árið 2000. Einungis 6% eru óánægð með ákvörðunina. Ennfremur eru 87% þjóðarinnar ánægð með störf Ólafs Ragnars sem forseta.

Þegar fólk var spurt hvort það styddi Ólaf Ragnar sem forseta, sögðust 86% gera það, 10% vilja fá einhvern annan í embættið og 5% er alveg sama hver sinnir embættinu. Spurt var hvort þau skilyrði sem menn þurfi að uppfylla til að geta boðið sig fram til embættis forseta Íslands væru of ströng eða of væg og fannst 57% landsmanna þau vera of væg, en aðeins 2% að þau væru of ströng.

Þá var spurt hvort ætti að takmarka þann tíma sem einstaklingur getur gegnt embætti forseta Íslands og voru 42% þeirrar skoðunar. Þeir einstaklingar sem játuðu því voru þá spurðir hversu mörg ár einstaklingur ætti að geta gegnt embætti forseta Íslands. Tæplega helmingi þeirra fannst 10-12 ár vera hæfilegur hámarkstími í embætti, en álíka mörgum fannst 8 ár eða skemmri tími og 15 ár eða lengri tími hæfilegur. Yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar er andvígur því að leggja niður embætti forseta Íslands, eða 89%, en 7% eru því hlynnt.

Könnun á afstöðu til forseta Íslands var gerð dagana 10. - 22. janúar. Í úrtaki voru 1257 landsmenn en svarhlutfall var 61%.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×