Innlent

Eftirlitsaðilar bregðist við brotum á reykingabanni

MYND/GVA
Heilbrigðisráðuneytið hefur sent út bréf til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga, Vinnueftirlitsins, Flugmálastjórnar og Siglingamálastofnunar, lögregluembætta, Umhverfisstofnunar og Lýðheilsustöðvar þar sem fram kemur hvernig hægt sé að bregðast við brotum á lögum um tóbaksvarnir.

Bréfið er sent í kjölfar þess að nokkrir staðir í miðbæ Reykjavíkur tóku upp á því að heimila reykingar til þess að mótmæla því að ekki mætti koma upp reykherbergjum á stöðunum. Umhverfissvið borgarinnar óskaði eftir því að ráðuneytið skýrði hvaða þvingunarúrræði væru til staðar til þess að bregðast við brotum á lögunum og hefur ráðuneytið nú sent bréf til eftirlitsaðilanna þessa efnis.

Í því er bent á að meginregla laga um tóbaksvarnir sé að reykingar séu óheimilar á vinnustöðum. Þó er heimilt að hafa sérstakt afdrep fyrir tóbaksreykingar enda hafi almenningur ekki aðgang að þeim. Heimild þessi gildir jafnt fyrir stofnanir, að frátöldum heilbrigðisstofnunum og skólum, þ.e. leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum, og fyrirtæki.

Ráðuneytið bendir á að samkvæmt lögum geti heilbrigðisnefndir veitt áminningu og frest til úrbóita, beitt dagsektum og svipt staði starfsleyfi. Þá geti Vinnueftirlitið krafist úrbóta og lagfæringa á ólögmætu ástandi, beitt dagsektum ef úrbótum er ekki sinnt og stöðvað vinnu eða lokað starfsemi ef í harðbakkan slær.

Þá geti lögregla svipt leyfishafa rekstrarleyfi verði hann uppvís að því að misnota rekstrarleyfið eða vanrækja skyldur sem á honum hvíla samkvæmt lögunum eða öðrum lögum, þar með talið lögum um tóbaksvarnir.

Beinir heilbrigðisráðuneytið því til eftirlitsstjórnvalda að bregðast við brotum á tóbaksvarnalögum í samræmi við heimildir sínar að lögum. Þá beinir ráðuneytið því sérstaklega til heilbrigðisnefnda sveitarfélaga og Vinnueftirlits ríkisins að þau tilkynni lögreglu um öll brot sem þau verða áskynja um við framkvæmd eftirlits með því að virt séu ákvæði tóbaksvarnalaga.

Bréf heilbrigðisráðuneytisins má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×