Innlent

Deilt um þyngd fíkniefna í Fáskrúðsfjarðarmáli

Frá þingfestingu málsins fyrr í mánuðinum.
Frá þingfestingu málsins fyrr í mánuðinum. MYND/Stöð 2

Tekist er á um það í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag hversu þungt amfetamínið er sem lögregla lagði hald á í Fáskrúðsfjarðarmálinu.

Aðalmeðferð í málinu hófst í morgun og stendur fram eftir degi. Eins og kunnugt er eru sex ákærðir í málinu og hafa þeir allir játað aðild að því en fjórir þeirra gera fyrirvara um magn efnanna.

Samkvæmt ákæru er mönnunum gefið að sök að hafa staðið saman að innflutningi á samtals 23,5 kílóum af amfetamíni, tæpum 14 kílóum af e-töflu dufti og 1746 e- töflum til Íslands, ætluðu til söludreifingar í ágóðaskyni. Lögregla gerði fíkniefnin upptæk í skútu sem lagði að bryggju í Fáskrúðsfjarðarhöfn að morgni fimmtudagsins 20. september.

Dómari í málinu ákvað við þingfestingu fyrr í mánuðinum að efnin skyldu vigtuð á ný eftir að sakborningar höfðu lýst yfir efasemdum um að magnið væri jafnmikið og fram kæmi í ákæru. Deilt er um hvort efnin hafi verið vigtuð blaut hjá lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×