Innlent

ASÍ: Lögbrot við hópuppsagnir hjá HB Granda

Grétar Þorsteinsson er forseti ASÍ.
Grétar Þorsteinsson er forseti ASÍ. MYND/Stöð 2

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands mótmælir því harðlega að ekki skuli farið að leikreglum við framkvæmd hópuppsagna 59 starfsmanna HB Granda hf. á Akranesi. Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var hjá miðstjórninni í dag.

Segir í ályktuninni að athygli ASÍ hafi verið vakin á því að mjög alvarlega hafi verið brotið gegn málsmeðferðarreglum laga um hópuppsagnir. Þannig hafi HB Grandi ekki viðhaft lögbundið samráð eða látið trúnaðarmönnum starfsmanna í té skriflegar upplýsingar um fyrirhugaðar uppsagnir. Meðan svo sé, sé óheimilt að tilkynna starfsmönnum um uppsagnir á ráðningarsamningum. ASÍ líti það alvarlegum augum þegar réttur starfsmanna sé ekki virtur.

,,Miðstjórnin telur mikilvægt að samstaða náist í atvinnulífinu nú þegar mæta þarf erfiðleikum vegna niðurskurðar á aflaheimildum og þegar þeim erfiðleikum sé mætt verði í hvívetna farið að þeim samningum og lögum sem í gildi eru."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×