Innlent

Svifryk fimm sinnum yfir mörkum á einum mánuði

MYND/GVA

Svifryk mældist fimm sinnum yfir sólarhrings heilsuverndarmörkum á horni Miklubrautar og Stakkahlíðar á tímabilinu 7. desember í fyrra til 16. janúar í ár og köfnunarefnisdíoxíð einu sinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá umhverfissviði borgarinnar.

Þá hefur svifryk mælst tvisvar sinnum yfir heilsuverndarmörkum við Grensáveg frá áramótum. Heilsuverndarmörkin eru 50 míkrógrömm á rúmmetra. Segir í tilkynningu umhverfissviðs að þetta bendi til þess að meiri mengun sé við Miklubraut-Stakkahlíð en Miklubraut-Grensásveg.

Sem fyrr segir fór köfnunarefnisdíoxíð einu sinni yfir heilsuverndarmörk á tímabilinu en þar eru mörkin 75 míkrógrömm á rúmmetra. Aðaluppspretta köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) í Reykjavík er frá umferð en stærsti hluti þess verður til vegna oxunar á köfnarefnismónoxíðs með ósoni (O3). Það er talið hafa áhrif á heilsu fólks.

Færri bílar á nagladekkjum

Samkvæmt umhverfissviði reyndust hins vegar færri bílar á nagladekkjum í borginni nú en í fyrra, eða 42 prósent. 47 prósent ökutækja voru á negldum dekkjum á sama tíma í fyrra og hlutfallið var 56 prósent árið árið 2005. „Þetta er jákvæð þróun sem dregur úr svifryksmengun í borginni, því nagladekkin slíta hratt upp malbiki," segir Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá mengunarvörnum Umhverfissviðs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×