Innlent

Bobby Fischer látinn

MYND/Pjetur

Skákmeistarinn Bobby Fischer er látinn. Hann lést eftir erfið veikindi.

Fischer fæddist 9. mars 1943. Hann vakti snemma athygli fyrir gríðarlega skákhæfileika. Hann varð heimsmeistari í skák árið 1972 í einvígi sem kallað hefur verið einvígi síðustu aldar þegar hann atti kappi við Sovétmanninn Boris Spasskí í Reykjavík. Mótið stóð yfir frá því í júlí og fram í september og vann Fischer með 12 og hálfum vinningi gegn átta og hálfum vinningi Spasskís.

Fischer varð íslenskur ríkisborgari árið 2005 eftir að hann afsalaði sér bandarískum ríkisborgararétti til að forðas lögsókn þar, en Fischer hafði teflt við Spasskí í Júgóslavíu þvert á viðskiptabanna Bandaríkjanna. Fischer var af mörgum talinn einn mesti skákmaður allra tíma.


Tengdar fréttir

Fékk að kenna á snilli Bobbys Fischer

Friðrik Ólafsson stórmeistari og fyrrverandi forseti Skáksambands Íslands segir fráfall Bobbys Fischer sorgleg tíðindi. Friðrik segist nokkrum sinnum hafa fengið að kenna á snilli Fischers og telur hann einn af höfuðsnillingum skáklistarinnar.

Bobby leitaði skjóls í búðinni hjá Braga

„Ég var einmitt að leggja til hliðar bækur til að láta hann fá þegar ég heyrði fréttirnar," segir Bragi Kristjónsson bóksali, en Bobby Fischer var fastagestur í búðinni hans á Klapparstígnum. „Hann hafði mest gaman af gömlum amerískum teiknimyndasögum og hló mikið þegar hann las þær." Bragi segir að einnig hafi hann leitað í sögur af mönnum sem hrakist hefðu frá löndum sínum enda má segja að Bobby hafi verið í slíkri stöðu sjálfur.

Hver var Bobby Fischer?

Robert James Fischer var fæddur þann 9.mars árið 1943. Hann lést á Landsspítalanum í Fossvogi í gær og hefði því orðið 65 ára gamall á þessu ári. Bobby Fischer varð frægur á unglingsárum fyrir hæfileika sína við skákborðið.

Bobby kom Íslandi á kortið

Einar S. Einarsson var í forsvari hópsins sem beitti sér fyrir því að Bobby Fischer fengi lausn úr fangelsi í Japan og íslenskan ríkisborgararétt. Hann kynntist Fischer náið á þeim þremur árum sem liðin eru síðan hann kom hingað til lands. „Bobby Fischer var að mínu mati meistari meistarana í skák," segir Einar í samtali við Vísi. „Hann kom Íslandi á kortið, svo einfalt er það. Þegar hann tefldi hér við Spassky 1972 var Ísland óþekkt í heiminum og Fischer breytti því á skammri stund."

Spasskí brugðið við fréttir af fráfalli Fischers

Boris Spasskí var brugðið þegar Vísir hafði samband við hann á heimili hans í París fyrir stundu vegna andláts Bobbys Fischer fyrrverandi andstæðings síns í skák. Hann hafði ekki heyrt af fráfalli Fishers en vildi vita nánari upplýsingar um aðdraganda þess. Spasskí vildi ekki tjá sig frekar á þessari stundu.

Þakklát fyrir að Fischer fékk að deyja á Íslandi

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Skáksambands Íslands, segist þakklát fyrir það að Íslendingar hafi komið Bobby Fischer til hjálpar og hann hafi fengið að deyja frjáls á Íslandi en ekki í fangelsi. Bobby Fischer lést í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×