Innlent

Dæmdur fyrir eignaspjöll í Danmörku

Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt karlmann til 300 þúsund króna sektar og svipt hann ökuleyfi í hálft ár fyrir nokkur brot á árunum 2006 og 2007, þar á meðal eignaspjöll í verslun Kaupmannahöfn í Danmörku.

Maðurinn var ákærður fyrir að ráðast á annan mann í Lækjargötu í september 2006 og slá hann í höfuðið nokkrum sinnum með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð á vinstri augabrún og skurð fyrir neðan vinstra auga auk glóðarauga vinstra megin.

Maðurinn var sakfelldur fyrir brotið en það varð honum til refsilækkunar að líklegt var talið að hann hefði ekki átt upptök að árásinni. Hins vegar var hann dæmdur til að greiða fórnarlambi sínu rúmar 100 þúsund krónur í bætur.

Þá var hann sakfelldur fyrir að hafa ekið undir áhrifum fíkniefna og áfengis í umdæmi lögreglunnar á Selfossi en sú ökuferð endaði utan vegar. Þá var maðurinn ákærður fyrir að veitast að sjúkraflutningamönnum sem hugðust flytja hann á sjúkrahús eftir óhappið. Átti hann að hafa sparkað í hægra hné annars sjúkraflutningamannsins og slegið hinn í öxlina. Var hann aðeins sakfelldur fyrir hið síðarnefnda.

Að lokum var hann ákærður fyri eignaspjöll í versluninni Matas í Kaupmannahöfn í ágúst 2006 en þar sparkaði hann í rúðu með þeim afleiðingum að hún brotnaði. Játaði hann sök og var því sakfelldur fyrir eignaspjöllin.

Með brotum sínum rauf maðurinn skilorð fyrri dóms en í ljósi þess að hann væri að koma lífi sínu á réttan kjöl, væri hættur í neyslu og kominn í sambúð, þótti rétt að láta skilorð dómsins haldast. Var hann því einungis sektaður um 300 þúsund krónur fyrir brotin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×