Innlent

Getur Davíð gefið hlutlæga umsögn um Kaupþing?

Valgerður Sverrisdóttir þingmaður Framsóknarflokksins velti því fyrir sér á Alþingi í dag hvort að Davíð Oddsson seðlabankastjóri gæti gefið hlutlæga umsögn um fyrirtækin Landic property og Kaupþing þegar forsagan væri höfð í huga.

Seðlabankinn lagðist nýlega gegn því að Kaupþing fengi að gera upp í evrum. Bankinn skaut málinu til Árna Mathiesen fjármálaráðherra sem á enn eftir að ákveða hvort hann leyfir eða bannar Kaupþingi að færa uppgjör sitt í evrum.

Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi iðnaðar og viðskiptaráðherra, spurði fjármálaráðherra í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag hvað hann ætlaði sér að gera í málinu. Fjármálaráðuneytið hefur þegar synjað fasteignafélaginu Landic property um að gera starfsemi sína upp í evrum.

Valgerður líka fyrir sér hvort að Davíð Oddsson seðlabankastjóri gæti gefið hlutlæga umsögn um fyrirtækin Landic property og Kaupþing þegar forsagan væri höfð í huga.

Valgerður sagði í samtali við fréttastofu að í ræðu sinni hefði hún verið að vísa til ósættis Davíðs og Baugsmanna. Ráðandi eigendur í fasteignafélaginu Landic property eru Baugsmenn.

Flestum er einnig í fersku minni þegar að Davíð Oddsson, sem þá var forsætisráðherra tók innstæðu sína út sem hann átti á reikningi hjá Kaupþingi Búnaðarbanka haustið 2003. Davíð gagnrýndi stjórnendur bankans harðlega og sagði þá hvorki hafa siðferði né dómgreind til að starfa án eftirlits á bankamarkaðnum þar sem að samningar sem þeir höfðu á gert, um kaup á hlutafé í bankanum, hefðu tryggt þeim hundruð milljóna króna virðisauka á núvirði.

Árni Mathiesen sagði á Alþingi í dag að hann gætið ekki tjáð sig um málið á þessari stundu þar sem það myndi gera hann vanhæfan í málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×