Innlent

Fagnar afnámi 24 ára reglunnar

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss.
Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahúss. Mynd/ GVA
Svokölluð 24 ára regla verður felld úr útlendingalögum, samkvæmt frumvarpi sem dómsmálaráðherra hyggst leggja fram til breytingar á lögunum á vorþingi. Eins og lögin eru nú, er gert ráð fyrir að erlendur ríkisborgari í hjúskap með íslenskum ríkisborgara þurfi að vera orðinn 24 ára til að öðlast dvalarleyfi á grundvelli hjúskaparins. Var þetta ákvæði sett til að koma í veg fyrir málamyndahjónabönd.

Einar Skúlason, framkvæmdastjóri Alþjóðahússins, segist fagna því að frumvarpið verði lagt fram. „Það eru engin rök fyrir því af hverju 24 ára einstaklingur sé færari um að ganga í hjónaband en yngra fólk, " segir Einar. Hann segir það vissulega vera vandamál ef menn misnoti lög og reglur, eins og með málamyndahjónaböndum. Hins vegar megi heildin aldrei líða fyrir nokkra svarta sauði. „Mér finnst þetta svona svipað eins og þegar gift fólk skráir sig úr sambúð á pappírunum bara til að svindla á kerfinu, " segir Einar.

Einar segist eiga erfitt með að átta sig á því hve algeng málamyndahjónabönd séu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×