Innlent

Í þriggja vikna varðhald vegna misheppnaðs ráns

MYND/Anton Brink

Starfsmaður Sunnubúðar sem handtekinn var í gær fyrir að sviðsetja rán í búðinni ásamt félaga sínum var í dag úrskurðaður í þriggja vikna gæsluvarðhald og síbrotagæslu að sögn lögreglu.

Félagi hans sem kom grímuklæddur inn í verslunina var hins vegar ekki úrskurðaður í gæsluvarðhald en þar sem hann hafði ekki greitt sekt, sem hann hafði áður fengið, innan tilskilins tíma var hann settur í sex daga fangelsi.

Atvikið var með þeim hætti að rannsóknarlögreglumenn voru nýkomnir í Sunnubúð í Mávahlíð með það fyrir augum að handtaka starfsmanninn vegna gruns um tengsl hans við tvö önnur rán í verslunum 11-11. Þá réðst inn grímuklæddur maður vopnaður hnífi. Hann var handtekinn og reyndist um að ræða vin starfsmannsins sem einungis hafði unnið í versluninnni í fjóra daga.

Mennirnir sem báðir eru á tvítugsaldri voru fluttir á lögreglustöð og við yfirheyrslu kom í ljós að þeir höfðu undirbúið og skipulagt sviðsetningu á ráni í versluninni í þeim tilgangi að ná peningum, símainneignum og tóbaki.

„Maður er bara alveg sjokkkeraður, ég var nýbúinn að ráða hann vinnu. Hann var búinn að vinna í búðinni í þrjá daga, ég sleppti honum í klukkutíma og þá gerist þetta," segir Þórður Björnsson, eigandi Sunnubúðar í samtali við Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×