Innlent

Sögðu Sultartangavirkjun faglegan ruslahaug

MYND/Lárus

Forsvarsmenn Rafiðnaðarsambandsins bentu á það árið 2000 að Sultartangavirkjun væri faglegur ruslahaugur. Á þetta benti Gunnar Svavarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.

Gunnar vakti máls á bilunum í Sultartangavirkjun sem valda því að þar er nú ekkert rafmagn framleitt. Benti hann að fyrri spennir virkjunarinnar hefði gefið sig í nóvember og sá síðari á aðfangadag og útlit væri fyrir að þeir kæmust ekki í lag fyrr en í febrúar og apríl.

Þá sagði Gunnar að samanlögð orkuframleiðsla Landsvirkjunar væri 1900 megavött en 120 þeirra væru dottin út með Sultartangavirkjun eða sjö prósent orkunnar. Benti hann á að á heimasíðu Landsvirkjunar kæmi fram að þetta væri ein af nýjustu virkjunum fyrirtækisins en hún komst í fullan rekstur árið 2000.

Spurði Gunnar Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra hvort Landsvirkjun eða Landsnet hefði sent ráðherra einhverjar skýrslur eða minnisblöð vegna þessa eða hvort einhver samtöl hefðu átt sér á milli ráðuneytisins og fyrirtækjanna.

Össur Skarphéðinsson svaraði því til að Landsvirkjun væri samkeppnisfyrirtæki sem ekki bæri skylda til þess að senda ráðherra skýrslu um málið. Sama mætti segja um Landsnet sem bæri að taka upp skömmtun á rafmagni ef þess þyrfti. Svo væri ekki í þessu tilviki.

Össur greindi jafnframt frá því að hann myndi funda með forsvarsmönnum Landsnets á morgun og hann vænti þess að málefni Sultartangavirkjunar yrðu rædd þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×