Innlent

Stjórn Faxaflóahafna ósammála áliti Sundabrautarnefndar

Stjórn Faxaflóahafna sf. er ekki sammála því að nauðsynlegt sé að efna til útboðs vegna Sundabrautar eins og kemur fram í niðurstöðum starfshóps ríkisstjórnarinnar og Faxaflóahafna. Í dag var til umræðu hjá stjórninni ný skýrsla starfshópsins og var samþykkt einróma eftirfarandi ályktun vegna málsins:

„Stjórn Faxaflóahafna sf. ítrekar fyrri ályktanir um mikilvægi Sundabrautar og nauðsyn þess að verkefnið komist sem allra fyrst á framkvæmdastig. Stjórn Faxaflóahafna sf. skorar á samgönguráðherra og Alþingi að setja verkefnið í forgang og tryggja með markvissum aðgerðum greiðan framgang þess þannig að framkvæmdir við Sundabraut hefjist sem allra fyrst. Ályktanir samtaka og sveitarstjórna á Vesturlandi og borgarstjórnar Reykjavíkur eru samhljóma og á þann veg að frekari tafir á lagningu Sundabrautar séu óásættanlegar."

Þá segir í yfirlýsingunni að skýrsla starfshópsins beri með sér það álit fulltrúa ríkisins að ekki geti orðið af því að semja án útboðs við Faxaflóahafnir sf. um aðkomu og umsjón með verkefninu. „Fulltrúi Faxaflóahafna sf. í starfshópnum er ekki sammála þeirri niðurstöðu fulltrúa ríkisins m.a. með vísan til samsvarandi verkefna í Noregi. Stjórn Faxaflóahafna sf. lýsir sig enn sem fyrr reiðubúna að koma að þessu verkefni ef það má verða til þess að hraða framkvæmdum og tryggja framgang þess."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×