Innlent

Aukin svartsýni hjá fyrirtækjum landsins

Stjórnendur fyrirtækja á landinu eru mun svartsýnni en áður á aðstæður í efnahagslífinu samkvæmt könnun sem Capacent Gallup hefur gert og greint er frá á vef Samtaka atvinnulífsins.

Könnunin er gerð ársfjórðungslega og snýr að stöðu og framtíðarhorfum hjá 400 stærstu fyrirtækjum landsins. Þegar könnunin var gerð töldu um 42 prósent stjórnenda að aðstæður í efnahagslífinu væru góðar en í samsvarandi könnun fyrir ári voru um 74 prósent á þeirri skoðun. Átján prósent telja aðstæðurnar slæmar og 40 prósent hvorki góðar né slæmar.

Aðeins 16 prósent fyrirtækja telja að aðstæður í efnahagslífinu verði betri eftir hálft ár, um 41 prósent býst við óbreyttum aðstæðum, en um 44 prósent vænta verri aðstæðna.

Könnun Capacent sýnir einnig að umframeftirspurn eftir starfsfólki fari minnkandi, að vöxtur innlendrar eftirspurnar dragist saman en meiri bjartsýni gætir um eftirspurn á erlendum mörkuðum.

Stjórnendur fyrirtækjanna spá að meðaltali 3,6 prósenta verðbólgu næstu 12 mánuði. Könnunin var gerð á tímabilinu 27. nóvember til 18. desember en síðan þá hafa aðstæður á fjármálamörkuðum versnað verulega og lækkaði til dæmis úrvalsvísitalan um u.þ.b. 12 prósent frá 19. desember til 11. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×