Innlent

Ekki hlutverk lífeyrissjóða að vera í viðskiptapólitík

Það er ekki hlutverk lífeyrissjóða að vera í viðskiptapólitík, segir Gunnar Sigurðsson, forstjóri Baugs Group. Hann setur spurningarmerki við fjárfestingastefnu Lífeyrissjóðs verslunarmanna, sem hann segir hafa fjárfest vel í samkeppnisfyrirtækjum Baugs.

Hvatning Starfsgreinasambandsins til lífeyrissjóðanna um að setja sér siðareglur í fjárfestingum, t.d. að hætta norska olíusjóðsins, fékk óvæntan snúning í gær þegar stjórnarformaður Lífeyrissjóðs verslunarmanna, Gunnar Páll Pálsson, sagði það örðugt á litla Íslandi þar sem mikill þrýstingur væri frá stórum fjárfestum á að Lífeyrissjóðurinn hagaði fjárfestingum að þeirra óskum - ella hefðu þeir verra af. Hann vísaði meðal annars til Baugs en þess er skemmst að minnast þegar fregnir bárust af því fyrir hálfu öðru ári að Baugur hefðu í hyggju að stofna lífeyrissjóð fyrir sína starfsmenn - sem flestir hverjir greiða í Lífeyrissjóð verslunarmanna.

Forsvarsmenn Baugs vildu ekki tjá sig í viðtali þegar fréttastofa leitaði eftir því í dag en Gunnar Sigurðsson forstjóri Baugs sagði hins vegar í símtali frá London að ekki væri óeðlilegt að spyrja hvernig á því stæði að sjóðurinn hefði t.d. fjárfest duglega í Kaupþingi, Símanum og Exista - sem væru í samkeppni við Glitni, Vodafone og FL Group þar sem Baugur á stóra hluti - í ljósi þess að ávöxtun fjár í þessum félögum væri sambærileg. Því velti menn fyrir sér hvort önnur sjónarmið vektu fyrir sjóðnum - en þau að hafa hagsmuni sinna sjóðsfélaga að leiðarljósi.

Aðspurður hvað liði stofnun fyrirtækjalífeyrissjóðs Baugs sagði Gunnar að þær hugmyndir hefðu einungis verið ræddar og fljótlega verið slegnar út af borðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×