Innlent

Grímseyjarferja í vandræðum í fyrstu sjóferð sinni

Fyrsta sjóferð Grímseyjarferjunnar eftir endurbætur í Hafnarfirði gengur illa. Önnur vél skipsins bilaði á siglingu til Akureyrar og hefur ferð hennar norður tafist af þeim sökum.

Slippurinn á Akureyri bauð lægst í verkþátt sem unninn verður fyrir norðan og lýtur meðal annars að bættu aðgengi fyrir fatlaða. Ferjan átti að leggjast að bryggju á Akureyri í morgun en ekkert bólaði á henni. Töfin skýrist af því að önnur vél ferjunnar er biluð og keyrir hún nú á aðeins hálfu vélarafli. Búist er við að hún skili sér til Akureyrar upp úr hádeginu.

Grímseyingar hafa sumir hverjir lýst áhyggjum af því hvort ferjan þoli sjólagið í hinu úfna Atlantshafi og víst er að jómfrúarferð hennar nú mun ekki auka tiltrú efasemdarmanna. Kostnaður við endurbætur á henni hefur ennfremur rokið upp úr öllu valdi eins og greint hefur verið frá. Ferjan lagði upp frá Hafnarfjarðarhörn á laugardag og hefur því siglingin norður tekið drjúgan tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×