Innlent

Húsin við Laugaveg 4 og 6 skyndifriðuð

Ákveðið hefur verið að skyndifriða húsin við Laugaveg 4 og 6. Að sögn Nikulásar Úlfars Mássonar, forstöðumanns Húsafriðunarnefndar, var ákvörðun um skyndifriðun ákveðin á þeirri forsendu að þrátt fyrir Húsafriðunarnefnd hefði ákveðið fyrir helgi að leggja það til við ráðherra að friða húsin, hefði niðurrifi verið haldið áfram. Því hafi Húsafriðunarnefnd þótt rétt að nýta sér heimild í lögum um skyndifriðun.

Eins og kunnugt er stóð til að rífa húsin en borgin samdi við eigendur þeirra og lóðarinnar, eignarhaldsfélagið Kaupang, um að fá að fjarlægja þau í staðinn. Til stóð að flytja þau á annan stað og gera upp og hafði borgin tvær vikur til að fjarlægja húsin. Sá frestur rennur út á föstudag.

Eftir nokkrar umræður í samfélaginu ákvað Húsafriðunarnefnd hins vegar að leggja það til við menntamálaráðherra að húsin tvö yrðu friðuð. Tillaga þessa efnis berst ráðherra hins vegar ekki fyrr en eftir tæpar tvær vikur þar sem eigendur húsanna geta gert athugasemdir við friðunina.

Það var því ljóst að samningur borgarinnar og Kaupangs félli úr gildi áður en menntamálaráðherra tæki afstöðu til friðunarinnar og því greip Húsafriðunarnefnd til þess ráðs að skyndifriða húsin. Skyndifriðun þýðir að ekki megi hrófla við húsunum fyrr en menntamálaráðherra hefur ákveðið hvort þau skuli friðuð, en unnið hefur verið að niðurrifi í húsunum undanfarna daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×