Innlent

Undirbúningur að tvöföldun vegar á Kjalarnesi hefjist strax

MYND/Pjetur

Stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi telur að hefjast eigi nú þegar handa við að tvöfalda þjóðveg 1 á Kjalarnesi því þegar sé búið að tryggja fé til verksins.

Í ályktun frá samtökunum segir að góðar samgöngur séu ein af forsendum framfara í atvinnulífi og velferð Vesturlands. Fyrir einu ári hafi fjármunir verið tryggðir til að undirbúa tvöföldun vegarins um Kjalarnes og tvöföldun Hvalfjarðarganga. Vegurinn um Kjalarnes anni ekki lengur umferð og hafi reynst vegfarendum hættulegur.

Þá áréttar stjórn samtakanna að Sundabraut sé mikilvæg fyrir höfuðborgarbúa, Vestlendinga og landsmenn alla og hvetur til þess að framkvæmdir við hana hefjist að norðanverðu frá Kjalarnesi svo unnt sé að byrja að nýta þá fjármuni sem þegar eru ætlaðir til verksins.

Enn fremur bendir stjórn Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi á að teikn séu á lofti um að ríkið og þar með skattgreiðendur allir muni fjármagna Vaðlaheiðagöng á Norðurlandi. Verði sú raunin bresti forsendur fyrir gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×