Innlent

Fagnar því að mál Þorsteins sé á leið til umboðsmanns

Þingflokksformaður Samfylkingarinnar fagnar því að ráðning Þorsteins Davíðssonar skuli vera á leið til umboðsmanns Alþingis. Hann segir ekki gott þegar ráðherra og fagnefnd séu ósammála í svo veigamiklu máli.

,,Hann liggur þannig rökstuðningurinn að ráðherra leggur mest upp úr því að viðkomandi umsækjandi hafi verið aðstoðarmaður dómsmálaráðherra meðan fagnefndin gerir minna úr því hlutverki. Því virðist mér vera að einhver ágreiningur sé þarna á milli fagnefndarinnar annars vegar og ráðherra hins vegar. Það er ekki gott þegar um jafnmikilvæg störf er að ræða eins og dómarans," sagði Lúðvík Bergvinsson í samtali við fréttamann Stöðvar 2.

Aðspurður hvort hann teldi að það ætti að endurskoða skipun dómara sagði Lúðvík að Samfylkingin hefði lengi haldið því fram að endurskoða ætti skipan hæstaréttardómara og mikilvægt væri að allt svona ferli væri gegnsætt og uppi á borðinu. Hann teldi að það gæti vel komið til álita að skoða það en það verði fróðlegt að skoða álit umboðsmanns í málinu. Það væri ágætt að málið færi til umboðsmanns vegna ágreiningsins í því.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×