Innlent

Fellst ekki á flutning eða niðurrif húsa við Laugaveg

Forseti borgarstjórnar og oddviti meirihlutaflokks í borginni, Ólafur F. Magnússon, mun ekki fallast á flutning eða niðurrif húsanna á Laugavegi fjögur og sex.

Umrædd hús eru með þeim elstu við Laugaveginn og þótt óhrjáleg séu eru ýmsir á því að þau beri varðveita og gera upp. Ekki er eining um málið innan meirihluta borgarstjórnar.

Oddviti Samfylkingar, Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, vill freista þess að flytja húsin og hefur Hljómskálagarðurinn verið nefndur í því samhengi. Svandís Svavarsdóttir, oddviti Vinstri - grænna, vill vernda götumyndina en hefur sagt flutning húsanna næstbesta kostinn. Og oddviti Frjálslyndra, Ólafur F. Magnússon, er ekki sáttur.

Ólafur benti á að menn hefðu vaknað til vitundar um þessi mál í kjölfar brunans við Austurstræti. Frjálslyndi flokkurinn setti verndun götumyndar Laugavegarins á oddinn ásamt nokkrum öðrum málum í kosningabaráttu sinni fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, 2006. Flokkurinn gaf meira að segja út spilastokk með myndum af þeim húsum við Laugaveginn sem hugsanlega yrði heimilað að rífa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×