Innlent

Húsin mikilvægur hluti götumyndar en ómerkileg í sjálfu sér

Forstöðumaður Húsafriðunarnefndar segir ákveðna mótsögn felast í því að flytja húsin á Laugavegi 4 - 6 og byggja þau upp á öðrum stað, til að mynda í Hljómskálagarðinum eins og nefnt hefur verið. Hann segir húsin hafa ótvírætt gildi þegar kemur að því að varðveita þessa elstu götumynd við Laugaveginn en ein og sér séu þau ekki sérstaklega merkileg.

Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar, segir í samtali við Vísi að nefndin hafi hingað til ekki talið að húsin væru kandítatar til þess að verða friðuð. Eigendur húsanna hafa gefið Reykjavíkurborg frest til þess að fjarlægja húsin en til stóð að rífa þau í dag.

Dagur B. Eggertsson hefur sagt að húsunum verði bjargað og þau flutt á annan stað þó ekki sé enn búið að ákveða hvert. Nikulás Úlfar segir hins vegar að betur hefði farið á því að borgin hefði keypt húsin af núverandi eigendum og selt þau síðan aftur með þeim skilmálum að ekki mætti rífa þau. Um sé að ræða elstu samfelldu götumyndina við Laugaveginn, Laugavegur 6 sé líklega næstelsta verlsunarhúsnæði borgarinnar og húsið númer fjögur er eitt af fáum húsum sem enn standa í borginni og eru með dönsku lagi.

„Umhverfisgildið er því gífurlega mikið en menningarsögulegt gildi þessara húsa er ekki svo mikið," segir Nikulás Úlfar Másson, forstöðumaður Húsafriðunarnefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×