Innlent

Glæsilegar skreytingar í rysjóttu veðri

Skemmtihúsið við Laufásveg þótti hafa einfalda og glaðlega skreytingu.
Skemmtihúsið við Laufásveg þótti hafa einfalda og glaðlega skreytingu.

Orkuveita Reykjavíkur veitti í dag eigendum sex húseigna á höfuðborgarsvæðinu viðurkenningar fyrir glæsilegar skreytingar á eignum sínum.

Viðurkenningarnar voru afhentar í höfuðstöðvum Orkuveitunnar og sagði Hjörleifur B. Kvaran forstjóri að aðdáunarvert væri hversu glæsilegar skreytingarnar hefðu verið þrátt fyrir einkar rysjótta aðventu með tíðum stormum.

Verðlaunaskreytingarnar í ár eru af ýmsum toga en þær skreyttu bæði einstök hús, bíl og raðhúsalengju. Þannig hlutu íbúar að Vesturgötu 115B á Akranesi verðlaun fyrir smekklega notkun á mislitum jólaljósum upp á gamla mátann, íbúar að Sæbraut 21 á Seltjarnarnesi voru verðlaunaðir fyrir skemmtilega og hófsama skreytingu og þá voru húsráðendur að Merkjateig 1 í Mosfellsbæ verðlaunaðir fyrir óvenjulega mikið af líkneskjum og fígúrum án þess þó að fara yfir einhver mörk.

Enn fremur fékk raðhúsalengjan að Bæjargili 36-44 í Garðabæ viðurkenningu fyrir skemmtilegt dæmi um samstarf og leikarahjónin Erlingur Gíslason og Brynja Benediktsdóttir fengu viðurkenningu fyrir einfalda og glaðlega skreytingu á Skemmtihúsinu við Laufásveg 22. Að lokum hlaut Teitur Jónasson ehf. verðlaun fyrir vel skreytta rútu sem lengi hefur vakið athygli vegfarenda í Kópavogi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×