Innlent

Játa á sig veggjakrot á Laugaveginum

Piltarnir tveir sem handteknir voru í tengslum veggjakrot á Laugaveginum í fyrradag hafa játað brot sitt. Þeir gætu átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi.

Piltarnir eru 17 og 18 ára gamlir en þeir voru handteknir á miðvikudaginn. Í fórum þeirra fundust úðabrúsar og önnur tól sem notuð eru til veggjakrots.

Þeir voru færðir til yfirheyrslu en sleppt að þeim loknum. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hafa þeir báðir játað brot sitt. Rannsókn málsins eru þó ekki að fullu lokið enda á enn eftir að meta það tjón sem piltarnir ollu með athæfi sínu. Talið er að það geti hlaupið á mörgum milljónum.

Lögreglan hefur nú þegar tekið á móti kærum og bótakröfum frá fjölmörgum verslunareigendum og íbúum við Laugaveginn en búist er við kröfum frá fleiri tjónþolendum.

Málið fellur undir 257. grein almennrar hegningarlaga en brot gegn henni getur varðað allt að sex ára fangelsi. Piltarnir tveir hafa ekki áður komið við sögu lögreglunnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×