Innlent

Björgvin G. mótfallinn virkjunum í Þjórsá

Viðskiptaráðherra vill að virkjunum í Þjórsá verði slegið á frest eða út af borðinu. Þar með hafa tveir ráðherrar Samfylkingar lýst sig andsnúna Þjórsárvirkjunum. Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra kveðst ekki geta fellt neina dóma yfir þessum virkjunum fyrr en málið kemur inn á hans borð.

Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra lýsti því yfir á RÚV í gær að virkjanaáform í neðri hluta Þjórsár væru arfur gamalla hugmynda og að það orkaði mjög tvímælis að setja niður lón í byggð. Virkjanaáformin hafa mætt harðri andstöðu heimamanna og Vinstri grænir hafa sakað Landsvirkjun um að beita sveitarstjórnarmenn í Flóahreppi ægivaldi, hörku og linnulausum þrýstingi. Einn þeirra sagði þögn umhverfisráðherra, iðnaðarráðherra og utanríkisráðherra skerandi. Umhverfisráðherra hefur nú lýst skoðun sinni.

Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra sagðist í samtali við fréttastofu í dag hafa fullan skilning á sjónarmiði Þórunnar. Hins vegar séu tormerki á að hann tjái sig, enda hafi hann "sjálfstæða rannsóknarskyldu ef til umsókna um virkjanir og hugsanlega eignarnáms kæmi," og geti því ekki "kveðið upp neina dóma fyrr en slíkar umsóknir, og rökin með þeim, komi á hans borð."

Þá hefur viðskiptaráðherra kallað eftir því við Landsvirkjun að koma með mildari útfærslu að virkjunum í Þjórsá, nú þegar ljóst er að orkan þaðan verði ekki sett í stóriðju. Í samtali við Stöð 2 sagði hann besta kostinn í stöðunni vera þann að áformum um virkjun í Þjórsá verði slegið á frest eða hætt við þær. Þá herma heimildir fréttastofu að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, hafi talað á neikvæðum nótum um virkjanir í Þjórsá á lokuðum fundum. Sé Ingibjörg mótfallin virkjunum í ánni er staðan sú að hálfur þingflokkur Samfylkingarinnar er á móti hugmyndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×