Innlent

Segir enga ósamstöðu í röðum Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði

Andri Ólafsson skrifar
Haraldur Þór Ólason, oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði
Haraldur Þór Ólason, oddviti Sjálfstæðismanna í Hafnarfirði

Guðmundur Rúnar Árnason, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði, vekur á því athygli á vef Hafnarfjarðarbæjar að Haraldur Þór Ólason, oddviti Sjálfstæðismanna í bænum hafi gengið fram hjá tveimur varabæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þegar hann boðaði forföll á bæjarstjórnarfundi skömmu fyrir jól.

Sveitastjórnarlög kveða skýrt á um að boði bæjarstjórnarmaður forföll skuli 1. varabæjarfulltrúi koma í hans stað, sé ekki hægt að boða hann þá skuli boða 2. varbæjarfulltrúa og koll af kolli.

Við forföll sín boðaði Haraldur 3. varabæjarfulltrúa, Skarphéðinn Orra Björnsson.

1. varabæjarfulltrúi Sjálfstæðismanna, María Gylfadóttir, staðfesti við Vísi að hún hefði verið við símann og til taks þegar Haraldur boðaði forföll sín. Hún undrast því að hafa ekki verið boðuð á fundinn. Spurð hvers vegna hún haldi að Haraldur hafi farið svona gegn reglunum svarar hún að hann hljóti að hafa gleymt því hvernig þær virki.

Haraldur Þór Ólason segir að hann hafi reynt að ná í Maríu þegar hann forfallaðist en ekki náð í hana. Þá hafi aðeins verið 30 mínútur þar til bæjarstjórnarfundurinn átti að hefjast og hann hafi því hringt í Skarphéðin Orra.

Hann segir ekki ástæðu til að gera úr þessu mál eins og hann segir nokkra hafa reynt.

María Gylfadóttir vonast til að þessi mistök Haraldar endurtaki sig ekki. Hún neitar því að þau sé merki þess að ósamstaða sé innan bæjarstjórnarflokks Sjálfstæðismanna en andstæðingar flokksins hafa haldið slíku kenningum á lofti undanfarin misseri. Þeir benda til að mynda á að varbæjarfulltrúarnir tveir sem Haraldur gekk framhjá til að koma Skarphéðni á fundinn, María Gylfadóttir og Bergur Ólafsson, hafi verið ósammála Haraldi í Álversmálinu sem mikið var deilt um í bænum í fyrra.

María Gylfadóttir gefur lítið fyrir þessar kenningar: "Við stöndum saman um það sem við þurfum að standa saman um," segir hún.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×