Innlent

Eftirlitssveitin í uppnámi

MYND/Pjetur

Uppsögn vopnahléssamkomulagsins á Sri Lanka af hálfu stjórnvalda hefur sett framtíð vopnahléseftirlitssveitarinnar í uppnám að sögn utanríkisráðuneytisins en sveitirnar eru skipaðar Íslendingum og Norðmönnum. Í tilkynningu frá ráðuneytinu segir að ákvörðunin sé hörmuð og óttast menn að uppsögnin verði til þess að auka enn á hörmungar íbúa landsins.

„Samkvæmt ákvæðum samkomulagsins skal tilkynna norska utanríkisráðuneytinu það með 14 daga fyrirvara verði samkomulagið fellt úr gildi af öðrum hvorum aðilanum. Formleg tilkynning liggur ekki fyrir, en stjórnvöld á Sri Lanka hafa gert fyrirætlun sína opinbera," segir í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu. „Íslensk stjórnvöld harma þessa ákvörðun stjórnvalda í Kolombó og óttast að hún verði til þess að auka enn hörmungar íbúa landsins. Eftirlit vopnahléseftirlitssveitarinnar á Sri Lanka (SLMM - Sri Lanka Monitoring Mission) hefur, þrátt fyrir aukin átök og vopnahlésbrot undanfarið, haft hamlandi áhrif á stríðandi fylkingar í landinu og haldið opnum tengslum við báða deiluaðila. Án eftirlitsins er hætta á að átökin verði bæði grimmilegri og víðtækari."

Þá segir að ljóst sé að uppsögn vopnahléssamkomulagsins muni setja starfsemi SLMM í uppnám enda sé umboð og öryggistrygging eftirlitssveitanna alfarið byggð á samkomulaginu. „Utanríkisráðuneyti Noregs og Íslands eru í nánu samstarfi um málið og munu taka ákvörðun um starfsemi SLMM þegar formlegar upplýsingar berast frá stjórnvöldum á Sri Lanka."

Níu íslenskir friðargæsluliðar eru starfandi innan eftirlitssveita SLMM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×