Innlent

Kafarar leita að pilti í og við Elliðaárnar

Talsverður viðbúnaður er við veiðihúsið við Elliðaárnar þar sem björgunarsveitarmenn leita nú að 19 ára pilti, Jakobi Hrafni Höskuldssyni.
Talsverður viðbúnaður er við veiðihúsið við Elliðaárnar þar sem björgunarsveitarmenn leita nú að 19 ára pilti, Jakobi Hrafni Höskuldssyni. MYND/Baldur

Kafarar á vegum björgunarsveitanna á höfuðborgarsvæðinu leita nú að 19 ára pilti, Jakobi Hrafni Höskuldssyni, í Elliðaánum og við árnar en hans hefur verið saknað frá því í gærmorgun. Leitað er í ánum allt frá gömlu rafstöðinni og niður að Geirsnefi.

Að sögn Ólafar Snæhólm Baldursdóttur, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, er einnig leitað í Elliðaárdalnum sjálfum með aðstoð hunda og þá er einnig leitað á sjó.

Síðast sást til piltsins við skemmtistaðinn Broadway við Ármúla um klukkan hálfsex að morgni nýársdags en þá hugðist hann halda heim á leið, í Blöndukvísl í Árbæjarhverfi.

Talið er hugsanlegt að Jakob hafi verið á þessu hjóli sem girt hefur verið af á brú yfir Elliðaárnar.MYND/Baldur

Að sögn Ólafar hafa fáar vísbendingar fundist um ferðir Jakobs en leit verður haldið áfram í allan dag ef þurfa þykir. Um hundrað björgunarsveitarmenn hafa komið að leitinni að Jakobi frá því í nótt.

Jakob er 188 sentímetrar ár hæð, frekar grannur með dökkt stutt hár, í dökkum buxum, hettupeysu og með derhúfu. Lögregla biður fólk sem gæti gefið upplýsingar um ferðar hans að hafa samband í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×