Enski boltinn

Ferguson: Þetta var eins og á jarðarför

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson lék stuðningsmenn Manchester United heyra það eftir sigurinn á Birmingham í dag og líkti stemmingunni á Old Trafford við jarðarför.

Meistararnir voru langt frá sínu besta í 1-0 sigri í dag og aðeins frábært mark Carlos Tevez skildi liðin að þegar upp var staðið. Ferguson var ekki ánægður með stuðninginn sem hans menn fengu í dag.

"Andrúmsloftið var ekki gott og þetta var meira eins og á jarðarför. Við fengum lítinn stuðning frá áhorfendum þegar við þurftum á honum að halda. Það er langt síðan ég hef heyrt svona rólega stemmingu. Hérna fyrir nokkrum árum átti andrúmsloftið til að detta niður inn á milli þegar við vorum með yfirburðalið, en þá kom fólk til að láta skemmta sér. Stundum þurfum við bara á stuðningsmönnunum að halda til að ná liðinu í gírinn, en sá stuðningur var ekki til staðar í dag," sagði Ferguson.

Hann sagði sína menn einfaldlega ekki hafa náð að hrista spræka andstæðingana af sér í dag. "Við vorum of kærulausir fyrir framan markið og við hefðum geta látið fara illa með okkur ef við hefðum fengið á okkur mark," sagði Ferguson, en hrósaði því sem vel fór í leiknum.

"Markið var frábært og undirbúningur Ronaldo var stórkostlegur. Mér fannst Park og Vidic vera bestu menn liðsins í dag og sérstaklega Park. Það er ótrúlegt að maður sem hefur ekki spilað í níu mánuði skuli koma svona inn í liðið og skila svona frammistöðu," sagði Ferguson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×