Innlent

Landsvirkjun Power eins og REI

Borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins segir útrásarfyrirtæki Landsvirkjunar svipað fyrirtæki og REI og að ekki eigi að blanda saman opinberum rekstri við einkarekstur.

Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er í ítarlegu viðtali við helgarblað DV. Þar er meðal annars farið yfir REI-málið svokallaða sem varð meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks að aldurtila.

Hún segir í viðtalinu að þar og í því eina máli hafi Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins í borginni, brugðist borgarfulltrúum flokksins. Hún segist ekki líta svo á að borgarfulltrúarnir hafi brugðist Vilhjálmi með því að funda með Geir H. Haarde, formanni flokksins, og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur varaformanni um málið án Vilhjálms.

Strax eftir fundinn hafi Vilhjálmi verið greint frá fundinum og hafi honum brugðið við tíðindin. Þorbjörg Helga segir sér það lífsins ómögulegt að skilja hvers vegna mál hafi þróast þannig að þau sem stigið hafi á bremsuna í málinu liggi undir ámæli fyrir að standa við sannfæringu sína.

Hún segir það sína sannfæringu að það sé rangt að fara út í rekstur á borð við REI sem upphaflega hafi verið stofnað að tilstuðlan Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, núverandi heilbrigðisráðherra. Þá segist hún hafa sömu afstöðu til Landsvirkjunar Power sem sé fyrirtæki af sama toga og REI.

Ef farið sé út í slíkan rekstur eigi það að vera á forsendum einkarekstrar en ekki eigi að blanda saman einkarekstri og opinberum rekstri. Hún spyr hvers vegna sjálfstæðismenn eigi að gefa frá sér öll prinsipp bara vegna þess að verið sé að tala um orkuútrás.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×