Innlent

Allt sem ég hef byggt upp síðustu ár farið

MYND/Stöð 2

„Það eina sem ég veitt er að það er bara allt farið sem maður er búinn að byggja upp síðustu ár," segir Jón Daníel Jónssson, eigandi Kaffi Króks á Sauðárkróki sem gjöreyðilagðist í eldi í nótt.

Lögreglan á Sauðarkróki fer með rannsókn brunans og segir enn óljóst hver eldsupptökin hafi verið. Jón Daníel segist hafa lokað húsinu um klukkan tólf í gær og hálftíma síðar kviknaði eldurinn. „Ég er kallaður út hér rétt fyrir klukkan eitt og fljótlega eftir að ég kom á staðinn þá er efri hæðin alelda. Það var ekki við neitt ráðið fyrr en þeir rufu þak og komust þannig að," segir Jón Daníel.

Í samtali við fréttaritara segir Jón Daníel framhaldið óráðið. „Það fer eftir því hvað kemur út úr rannsókninni og hvað tryggingafélagið vill gera. Svo sjáum við til."

Húsið sem brann er sögufrægt. Þa var byggt á árunum 1880 til 1890 og var því nokkuð á annað hundrað ára gamalt. Það hefur hýst margvíslega starfsemi í áranna rás og í kjallara þess var meðal annars fyrsta svarthol eða fangageymsla Skagfirðinga.

Kaupfélag Skagfirðinga rak líka verslun og raftækjaverkstæði í húsinu um árabil svo eitthvað sé nefnt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×