Fótbolti

Umdeildur dómari á leik Hollands og Íslands

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Matteo Trefoloni við störf á Ítalíu.
Matteo Trefoloni við störf á Ítalíu. Nordic Photos / AFP

Ítalinn Matteo Trefoloni verður dómari leiks Hollands og Íslands í undankeppni HM 2010 um næstu helgi en hann komst nýverið í fréttirnar fyrir skrautlega dómgæslu.

Trefoloni dæmdi leik Celtic og Álaborgar í Meistaradeildinni í síðasta mánuði og rak þar Michael Beauchamp, varnarmann danska liðsins, af velli.

Vandinn var hins vegar sá að Beauchamp var ekki sá sem braut af sér í umræddu atviki, heldur annar félagi hans í vörninni. Knattspyrnusamband Evrópu dró leikbann Beauchamp til baka en dæmdi svo réttan mann í bann.

Trefoloni er reyndar skoskum knattspyrnuáhugamönnum vel kunnugur þar sem hann rak Allan McGregor af velli í leik Rangers og Hapoel Tel-Aviv í febrúar á síðasta ári. McGregor var gefið að sök að skalla andstæðinginn sinn en hann neitaði því staðfastlega.

Íslendingar hafa því fengið nokkra athyglisverða dómara í þessari undankeppni. Í leik Íslands og Skotlands í síðasta mánuði var Belginn Serge Gumienny fenginn til að dæma leikinn og er óhætt að fullyrða að hann komst rétt þolanlega frá verkefni sínu - í besta falli.


Tengdar fréttir

Leikbannið sett á réttan mann

Knattspyrnusamband Evrópu hefur tekið kvörtun danska liðsins Álaborgar til greina og fellt niður leikbann sem Michael Beauchamp átti að fá fyrir rauða spjaldið sem hann fékk í leik sinna manna gegn Celtic í gærkvöldi.

Belgíski dómarinn ,,pirrandi og tilþrifamikill"

Blaðamaður hjá stærsta dagblaði Belgíu, Het Laatste Nieuws, skilur vel að Serge Gumienny hafi ekki heillað leikmenn og áhorfendur á leik Íslands og Skotlands í gær.

,,Versti" dómari Belgíu á Laugardalsvelli

Skoska blaðið The Daily Record greinir frá því í dag að dómari leiks Íslands og Skotlands á miðvikudaginn verði sá maður sem var kjörinn versti dómari belgísku úrvalsdeildarinnar í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×