Fótbolti

Belgíski dómarinn ,,pirrandi og tilþrifamikill"

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serge Gummienny gefur Stephen McManus rauða spjaldið í gær.
Serge Gummienny gefur Stephen McManus rauða spjaldið í gær. Mynd/Anton

Blaðamaður hjá stærsta dagblaði Belgíu, Het Laatste Nieuws, skilur vel að Serge Gumienny hafi ekki heillað leikmenn og áhorfendur á leik Íslands og Skotlands í gær.

Gumienny dæmdi leikinn í gær og var hreint skelfilegur. Hann hafði þó ekki úrslitaáhrif á leikinn þar sem hann dæmdi öll stærstu málin rétt - báðar vítaspyrnurnar og rauða spjaldið sem Stephen McManus fékk. Og ekki hallaði sérstaklega á íslenska liðið.

En varla liðu nokkrar mínútur án þess að hann var búinn að gera eitthvað til að draga óþarfa athygli að sér. Undir lokin voru leikmenn orðnir líka ansi pirraðir á honum - það sást langar leiðir.

Það kom umræddum blaðamanni ekki á óvart. „Gumienny er þekktur fyrir að vera með mjög mikið af leikrænum tilburðum. Svo virðist að hann vilji að allir taki eftir honum. Eins og hann sé á leiksviði."

„Hann er frekar pirrandi týpa og ætli það sé ekki besta orðið til að lýsa honum - hann er pirrandi. Þessir tilburðir hjá honum eru að langmestu leyti alger óþarfi."

Fyrir leikinn sögðu skoskir fjölmiðlar frá því að hann hefði verið kjörinn versti dómari síðustu leiktíðar hjá dagblaði í Belgíu. Viðmælandi Vísis kannaðist þó ekki við það né heldur tók hann undir það.

„Hann er ekki sá versti sem við eigum en ekki sá besti heldur. Það kemur mér til dæmis ekkert sérstaklega á óvart að hann skuli vera FIFA-dómari."

„Undanfarin ár hafa gæði dómara hér í Belgíu ekki verið mikil. Við eigum Frank De Bleeckere sem dæmdi í undanúrslitum á EM í sumar. Hann er mjög góður en við segjum oft að hann standi sig betur erlendis en heima."

„Aðra dómara verðum við að sætta okkur við. En Gummienny hefur batnað. Hann er enn pirrandi en svo lengi sem hann stendur sig þokkalega að mestu leyti lætur maður sig hafa það. Við eigum ekki mikið betra."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×