Fótbolti

,,Versti" dómari Belgíu á Laugardalsvelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Serge Gumienny við störf.
Serge Gumienny við störf. Nordic Photos / AFP

Skoska blaðið The Daily Record greinir frá því í dag að dómari leiks Íslands og Skotlands á miðvikudaginn verði sá maður sem var kjörinn versti dómari belgísku úrvalsdeildarinnar í fyrra.

Dómarinn heitir Serge Gumienny og hefur aðeins dæmt tvo landsleiki til þessa á sínum ferli. Það var viðureign Færeyjar og Sviss fyrir þremur árum og leikur Liechtenstein og Lettlands á síðasta keppnistímabili.

Skotar voru ekki ánægðir með frammistöðu tékkneska dómarans í leiknum gegn Makedóníu um helgina.

Hann dæmdi Makedónum vafasama aukaspyrnu í upphafi leiksins en úr henni skoraði Makedónía sigurmark leiksins. Skotar vildu svo tvívegis fá vítaspyrnu síðar í leiknum en fengu ekki.

„Ég hlakka til leiksins. Eftir úrslit leikjanna hjá þessum liðum um helgina er ljóst að leikurinn verður mikilvægur. Hvað landsleiki varðar, verður þetta minn stærsti leikur á ferlinum,“ sagði Serge.

Hvað áðurnefnda könnun sagði hann að slíkt fylgdi starfinu. „Dómarar eru vanir slíkri gagnrýni og við látum hana sem vind um eyru þjóta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×