Innlent

Leitarsvæðið víkkað út

MYND/Stöð 2

Björgunarsveitarmenn af suðvesturhorninu hafa víkkað út það svæði þar sem leitað er að 19 ára pilti, Jakobi Hrafni Höskuldssyni, sem saknað hefur verið frá því í gærmorgun.

Að sögn Gísla Rafns Ólafssonar, sem stjórnar leitinni, spannar leitarsvæðið frá skemmtistaðnum Broadway í Ármúla, þar sem Jakob sást síðast um hálfsex í gærmorgun, og upp í Kvíslahverfið í Árbæ, þangað sem pilturinn ætlaði.

Aðaláherslan er þó enn á Elliðaárdalinn og nágrenni hans. „Árnar eru mjög straumharðar og það má segja að þær séu hættulegasti staðurinn á þeirri leið sem talið er að pilturinn hafi farið," segir Gísli Rafn. Hann segir þá 130-140 björgunarsveitarmenn sem eru að störfum reyna að fínkemba svæðið á meðan enn sé bjart en ákvörðun um framhaldið verði tekin í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar tók um tíma þátt í leitinni en er nú lent.

Jakob Hrafn Höskuldsson.

Jakob er 188 sentímetrar ár hæð, frekar grannur með dökkt stutt hár, í dökkum buxum, hettupeysu og með derhúfu. Lögregla biður fólk sem gæti gefið upplýsingar um ferðar hans að hafa samband í síma 444-1000.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×