Innlent

Ólöf Ýrr nýr ferðamálastjóri

Ólöf Ýrr Atladóttir er hér með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra.
Ólöf Ýrr Atladóttir er hér með Össuri Skarphéðinssyni iðnaðarráðherra.

Ólöf Ýrr Atladóttir hefur verið ráðin ferðamálastjóri frá og með áramótum samkvæmt ákvörðun Össurar Skarphéðinssonar iðnaðaráðherra sem tók við málefnum ferðaþjónustunnar um áramótin.

Ólöf hefur verið framkvæmdastjóri vísindasiðanefndar og á að baki fjölbreytt nám í stjórnsýslu- og þróunarmálum, náttúruvísindum og íslensku í Háskóla Íslands og University of East Anglia. Hún hefur reynslu á sviði ferðaþjónustu úr landvörslu og fararstjórn, og var einnig forstöðumaður Kviku, fræðagarðs við Mývatn, eftir því sem segir í tilkynningu frá iðnaðarráðuneytinu.

Ráðuneytið telur hana best fallna til að vera leiðandi í mikilvægum breytingum á skipulagi, stjórnsýslu og fjármögnun ferðaþjónustunnar á Íslandi.

Alls sóttu 50 manns um starf ferðamálastjóra. 20 umsækjendur kallaðir til viðtals og þrír þeirra þóttu öðrum fremur hafa þá menntun, starfsreynslu og faglegan bakgrunn, sem krafist var samkvæmt auglýsingu til að gegna starfi ferðamálastjóra. Ráðherra valdi Ólöfu Ýrr úr síðasttalda hópnum með tilliti til forystuhæfileika og markmiðs jafnréttislaga.

Ferðamálastjóri veitir Ferðamálastofu forstöðu en þar starfa um 20 starfsmenn. Stofnunin rekur fimm skrifstofur innanlands og utan. Ólöf Ýrr tekur við starfinu af Magnúsi Oddssyni sem verið hefur ferðamálastjóri í 14 ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×