Erlent

Augað sér um Atlantsála

Atli Steinn Guðmundsson skrifar
MYND/CNN

Draumur 19. aldar verkfræðingsins Alexanders Stanhope St George er loks orðinn að veruleika. Barnabarn hans, Paul St George, hefur smíðað kíki með rúmlega þriggja metra breiðri linsu sem gerir Lundúnarbúum kleift að sjá yfir Atlantshafið og beinustu leið til Manhattan í New York. Með sams konar búnaði þar geta svo New York-búar horft til baka á Bretana.

Þetta er þó ekki alveg þvottekta kíkir vegna þess að tækni St George byggir á vefmyndavélum. Þeir sem líta í kíkinn fá því rafræna aðstoð við að berja augum lífið hinum megin Atlantsála enda ekki bein sjónlína á milli borganna vegna lögunar jarðar.

Kíkirinn er í raun listaverk sem dregur dár að gömlum hugmyndum um hinn svokallaða telectroscope sem í reynd var misritun blaðamanns á 19. öld og átti að heita electroscope en það er mælitæki sem hefur allt annað hlutverk en kíkir.

Það er þó ekki alltaf líf og fjör hinum megin vegna þess að þeir sem líta í kíkinn snemma að morgni Lundúnamegin sjá ekkert nema niðdimma nóttina í New York vegna tímamismunarins.

CNN greindi frá þessu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×