Innlent

Tilboð vegna lokafrágangs Grímseyjarferju opnuð á morgun

Greint verður frá því síðdegis á morgun hvaða skipasmíðastöð sér um lokafrágang á Grímseyjarferjunni. Töluvert á eftir að gera og fengu fjórar skipasmíðastöðvar tilboðsgögn frá Vegagerðinni.

Tilboð þeirra sem sjá um lokafrágang ferjunnar verða opnuð í fyrramálið og síðdegis verður greint frá því hver fær verkið.

Setja þarf nýjan inngang stjórnborðsmegin og neyðarútgang sem var að kröfu Siglingastofnunar bakborðsmegin. Einnig á eftir að skipta um tuttugu og tvo fermetra af stáli á síðum ferjunnar.

Nær allar innréttingar eru komnar en eftir á að setja niður stóla og borð í farþegasalina sem Vélsmiðja Orms og Víglundar hefur yfirumsjón með og verður það klárað á næstu vikum.

Við reynslusiglingu fyrir skömmu kom í ljós að ferjan fer ekki eins hratt og búist var við. G. Pétur Matthíasson, upplýsingarfulltrúi Vegagerðarinnar, segir að búið sé að þyngja skipið töluvert frá því sem áður var, þar sem komið hafi verið fyrir lestarrými ofan á. Hann segir að ekki sé hægt að segja til um hversu hægvirkari ferjan sé en málið sé í skoðun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×