Enski boltinn

Skelfilegur varnarleikur banabiti Tottenham

Tottenham fékk á sig Skandinavíutvennu úr föstum leikatriðum í kvöld
Tottenham fékk á sig Skandinavíutvennu úr föstum leikatriðum í kvöld NordicPhotos/GettyImages

Danski varnarmaðurinn Martin Laursen skoraði sigurmark Aston Villa í 2-1 sigri liðsins á Tottenham í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Enn og aftur varð glórulaus varnarleikur Lundúnaliðsins því að falli.

Það var Svíinn Olof Mellberg sem kom Villa yfir á heimavelli þegar hann skallaði aukaspyrnu Ashley Young óáreittur í mark gestanna eftir 40 mínútna leik.

Tottenham liðið hefur ekki verið í vandræðum með að skora á leiktíðinni og komst aftur inn í leikinn á 79. mínútu þegar Jermain Defoe jafnaði leikinn. Hann var í byrjunarliði Tottenham í stað Robbie Keane sem var hvíldur.

Það var hinsvegar Laursen sem tryggði Villa sigurinn með marki um sex mínútum fyrir leikslok þegar hann skallaði hornspyrnu Gareth Barry í netið einn á auðum sjó eftir að hafa hrist unglinginn Jamie O´Hara af sér í teignum.

Sigur Aston Villa var fyllilega verðskuldaður og nú er liðið taplaust í fimm leikjum. Segja má að Laursen hafi skuldað stjóra sínum Martin O´Neill sigurmarkið, því hann skaut boltanum himinhátt yfir mark Tottenham úr sannkölluðu dauðafæri fyrir opnu marki á 24. mínútu og það var ekki eina dauðafæri Villa manna í dag.

Tottenham hefur verið að rétta hægt og bítandi úr kútnum undir stjórn Juande Ramos, en þeim spænska hefur þó ekki tekist að kenna slökum varnarmönnum liðsins að verjast föstum leikatriðum frekar en forvera hans Martin Jol enda fær liðið á sig slík mörk í nánast hverjum einasta leik.

Það verður forvitnilegt að sjá hvað Ramos og félagar gera á leikmannamarkaðnum í janúar, því lið Tottenham á einfaldlega ekkert erindi í efri helming deildarinnar með óbreyttu varnarfyrirkomulagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×