Innlent

Vonast til að Reykjanesbraut klárist að mestu fyrir 15. október

MYND/GVA

Samgönguráðherra á von á því að Reykjanesbraut verði umferðarhæf fyrir 15. október í haust og að þá verði lokið framkvæmdum við tvöföldun hennar.

Þetta kom fram í svari hans við fyrirspurn Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, flokkssystur hans, á Alþingi í dag. Steinunn benti á að framkvæmdin hefði tafist nokkuð og ástand umferðaröryggismála væri óásættanlegt. Hún hefði upplýsingar um að 23 slys hefðu orðið á spottanum frá Vogaafleggjara til Keflavíkur, þar af þrjú alvarleg. Spurði hún ráðherra hvernig auka ætti umferðaröryggi á þessum kafla.

Kristján L. Möller samgönguráðherra benti á að fram hefði komið að tvöföldun Reykjanesbrautar hefði tafist vegna gjaldþrots verktaka. Sagði hann að samkomulag hefði náðst við Eykt um að byggja tvær brýr sem eftir væru en hins vegar hefði þurft að bjóða út afgang framkvæmdanna. Ef hann misminnti ekki yrðu tilboð opnuð á morgun og framkvæmdir hæfust væntanlega í framhaldinu. Samkvæmt áætlunum yrði gatan umferðarhæf 15. október.

Þá benti ráðherrann á að vegmerkingar hefðu verið settar upp á umræddum spotta. Þar væru vegmerkingar með 50 kílómetra hámarkshraða en þegar hann hefði ekið þar um hefðu margir ekið hraðar en það. Aðalatriðið væri að vegfarendur sýndu varkárni í akstri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×