Enski boltinn

Hiddink segir að Gomes þurfi tíma

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heurelho Gomes, markvörður Tottenham.
Heurelho Gomes, markvörður Tottenham. Nordic Photos / Getty Images

Hollenski þjálfarinn Guus Hiddink segir að forráðamenn Tottenham verði að gefa markverðinum Heurelho Gomes tíma til að aðlagast knattspyrnunni í Englandi.

Hiddink var knattspyrnustjóri PSV Eindhoven þegar Gomes var keyptur þangað en hann kom svo til Tottenham í sumar.

Gomes hefur verið gagnrýndur mjög fyrir frammistöðu sína á vellinum en nú síðast gerðist hann sekur um mistök sem kostaði Tottenham stig gegn Fulham um liðna helgi.

Harry Redknapp, stjóri Tottenham, er sagður nú vera að leita að nýjum markverði en Hiddink sagði í samtali við enska fjölmiðla að Redknapp þyrfti að gefa Gomes meiri tíma.

„Það hefur komið mér mjög á óvart að þetta hefur ekki gengið vel hjá Gomes en hann þurfti að fá tíma til að aðlagast hjá PSV fyrstu sex mánuði sína hjá félaginu," sagði Hiddink.

„Knattspyrnan í Brasilíu er mjög ólík þeirri í Hollandi. Hann þarf tíma í Englandi til að venjast knattspyrnunni þar. Þetta er markvörður í heimsklassa."

„Hann var algjör lykilmaður þegar að PSV varð meistari í tvö ár í röð og kom liðinu nánast einn síns lið í undanúrslit Meistaradeildarinnar."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×