Fótbolti

Stuðningsmenn komu í veg fyrir titilinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Frá leik Beitar Jerusalem.
Frá leik Beitar Jerusalem. Nordic Photos / Getty Images

Stuðningsmenn ísraelska liðsins Beitar Jerusalem komu í veg fyrir að félagið yrði ísraelskur meistari um helgina og sló þannig fagnaðarhöldum félagsins á frest, að minnsta kosti.

Beitar var að vinna 1-0 sigur á Maccabi Herzliya en sigur í leiknum hefði tryggt félaginu sinn annan meistaratitil í röð.

Stuðningsmönnum félagsins tókst hins vegar ekki að hemja gleði sína og réðust inn á völlinn á 86. mínútu til að fagna titlinum. Eigandi félagsins, milljarðamæringurinn Arkady Gaydamak, hvatti alla til að halda ró sinni og yfirgefa völlinn en án árangurs.

Flauta varð leikinn af og er ekki ljóst hvort hann verður endurtekinn eða Maccabi Herzliya verði dæmdur sigur í leiknum. Það gæti þó verið erfitt að taka þannig til ráða þar sem félagið á í harðri fallbaráttu í deildinni.

Í upphafi þessa myndbrots má sjá stuðningsmenn Beitar hlaupa inn á völlinn. Í þessu myndbroti má svo sjá stuðningsmann Beitar borinn af velli á börum en hann ákvað allt í einu að standa og fætur til að slá til ljósmyndara.

Eigandinn, Gaydamak, var allt annað en sáttur við hegðun stuðningsmannanna. „Við höfum engu að fagna enda töpuðum við. Ég veit ekki hvernig það má losna við þessa stuðningsmenn. Leikmenn okkar og aðrir starfsmenn hafa lagt mikið á sig og nú hafa þessir stuðningsmenn eyðilagt allt. Ég ber enga virðingu fyrir þeim. Þessir stuðningsmenn eru bastarðar og flón. Hvað mig varðar er Itzhak Schum (þjálfari) meistari, Eli Arazi (stjórnarformaður) er meistari, leikmennirnir eru meistarar en Beitar er ekki meistari."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×