Innlent

Byrjar að mjólka aftur fáum mánuðum eftir fjósbruna

Endurreisn fjóssins á Stærra-Árskógi er hafin af fullum krafti. Bóndinn á bænum stefnir að því að hefja mjaltir strax í næsta mánuði.

Margar hendur vina og vandamanna voru á lofti þegar Stöð 2 heimsótti Guðmund Geir Jónsson, bóndann á Stærra-Árskógi í Dalvíkurbyggð. Hann missti flesta nautgripi sína í eldsvoða nýverið en ákvað að gefast ekki upp heldur byggja nýtt fjós.

Aðspurður segir Guðmundur að nýja húsið sé nákvæmlega eins og það sem brann og grunnflötur sá sami. Eldri byggingar verði hins vegar endurnýjaðar.

Aðeins eru sjö vikur síðan fjósið brann og það liggur vel á bóndanum þessa dagana enda veðrið hið besta og bjartsýnin í loftinu. „Það birtir til og sólin að hækka á lofti. Það er bara eins í huganum hjá manni og maður vaknar miklu, miklu sperrtari núna heldur en maður gerði," segir Guðmundur.

Aðspurður hvenær hann reikni með að byrja að mjólka í nýja fjósinu segir Guðmundur að það verði í febrúar. „Ég hef sagt að ég ætli frekar að vera bjartsýnn en svartsýnn því ég held að það hjálpi mönnum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×