Fótbolti

Rússar rétt skriðu inn á EM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rússneska landsliðið.
Rússneska landsliðið.
Rússland mátti sætta sig við tap á heimavelli fyrir Skotum í dag í umspili um laust sæti á EM í Finnlandi á næsta ári. Rússar komust samt áfram þar sem þeir skoruðu fleiri mörk á útivelli.

Rússland vann fyrri leikinn í Skotlandi, 3-2, en tapaði svo heldur óvænt á heimavelli í kvöld, 2-1. Samanlögð úrslit því 4-4 en Rússar sem fyrr segir áfram á útivallamarkareglunni.

Ítalía vann Tékkland í kvöld, 2-1, og samanlagt 3-1. Úkraína komst sömuleiðis áfram eftir 2-0 sigur á Slóveníu í kvöld og samanlagt 5-0. Sömu sögu er að segja af Hollendingum sem unnu Spánverja í kvöld, 2-0, og samanlagt 4-0.

Það er því ljóst hvaða tólf þjóðir taka þátt í EM í Finnlandi á næsta ári. Liðunum tólf verður skipt í þrjá riðla og fjögur lið í hverjum riðli. Tvö efstu liðin úr hverjum riðli komast í fjórðungsúrslit auk þeirra tveggja liða sem ná bestum árangri í þriðja sæti sinna riðla.

Nú þegar er ljóst að Finnland keppir í A-riðli en Þýskaland og Svíþjóð eru í efsta styrkleikaflokki og dragast því í hina riðlana tvo.

Þau lið sem komust áfram sem sigurvegarar sinna riðla í undankeppninni eru í öðrum flokki og þau fimm lið sem komust áfram eftir umspilið í þriðja. Ísland er því í þriðja flokki.

1. flokkur: Þýskaland og Svíþjóð (Finnland í A-riðli)

2. flokkur: Danmörk, England, Frakkland og Noregur.

3. flokkur: Ísland, Ítalía, Rússland, Úkraína og Holland.

Drátturinn fer fram þann 18. nóvember næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×